Ábendingar um vetrarakstur
Tesla ökutækið þitt er með marga eiginleika sem eru gerðir til að bæta akstursupplifun þína í köldu veðri. Öll Tesla ökutæki bjóða upp á bestu vetraraksturseiginleika vegna jafnrar þyngdardreifingar, afar næmrar mótorstýringar og öflugrar spólvarnar.
Þegar kalt er í veðri nota bílar meiri orku til að vinna gegn auknu viðnámi í hjólbörðum og til að hita farþegarými og háspennurafhlöðu og því er eðlilegt að orkunotkun aukist.
Við vinnum stöðugt að uppfærslum með það að augnamiði að bæta akstursupplifun þína í frosti, þar á meðal með betri hitastjórnun, hraðari Supercharger-hraðhleðslu og betri fjarstýringu miðstöðvar og loftkælingar í farþegarými.
Margir af þessum eiginleikum eru virkjaðir sjálfkrafa eða hægt er að kveikja á þeim fyrir eða meðan á ferðinni stendur. Við hvetjum alla ökumenn til að nota þá til að ökutækið virki sem best í köldu veðri.
Settu ökutækið í samband
Þegar ökutækið er tengt við rafmagn reiða orkufrekir eiginleikar eins og undirbúningur á farþegarými og rafhlöðu á ytri aflgjafa frekar en rafhlöðu ökutækisins. Þetta hámarkar tiltæka orku til aksturs þegar þú slekkur á sambandi.
Tímasett brottför
Sparaðu umtalsverða orku í upphafi ferðar með því að nota „Scheduled Departure“. Þegar þú hefur tilgreint brottfarartíma með snertiskjánum eða Tesla appinu undirbýr ökutækið sig með því að ákveða hvenær er best að hefja hleðslu og undirbúning. Með réttum undirbúningi er tryggt að ökutækið sé á æskilegu hleðslustigi og hitastigi í farþegarýminu við brottför og að hámarksnýting og -afköst séu tiltæk frá því að þú byrjar að keyra. Ef rafhlaðan hefur ekki verið undirbúin nægjanlega notar hún hluta af sinni orku til að hita sig upp frekar en að nýta orkuna í akstursdrægni.
Þú finnur „Scheduled Departure“ í valmyndinni Charging á snertiskjá ökutækisins eða með því að velja „Schedule“ í Tesla appinu.
Undirbúðu ökutækið skömmu fyrir akstur
Þú getur forhitað farþegarýmið handvirkt með því að virkja undirbúning eða afþíðingu í Tesla appinu.
- Undirbúningur: Opnaðu Tesla appið og veldu „Climate“ > „Turn On“.
- Afþíðing: Opnaðu Tesla appið og veldu „Climate“> „Defrost Car“.
Athugaðu: Við mælum með því að þú notir fjarstýrða miðstöð og loftkælingu á meðan bíllinn er í sambandi til að þurfa ekki að nota orku frá háspennurafhlöðu bílsins.
Uppfært Energy-app
Energy-appið á snertiskjánum birtir myndræna framsetningu á rauntíma- og áætlaðri orkunotkun ökutækisins þíns.
Þegar þú ekur mælir ökutækið rauntímaneyslu miðað við þá sem búist var við og lætur þig vita hvar þú ert að auka eða missa drægni út frá nokkrum þáttum. Ráðleggingar um drægni eru gefnar til að leiðbeina þér hvernig best sé að bæta orkunotkun þína.
Þá vaktar orkuappið orkunotkun þegar bílnum er lagt í stæði til að sýna þér hvaða kerfi eru að nota orku á meðan bíllinn er kyrrstæður.
Uppfærða orkuappið krefst hugbúnaðarútgáfu 2022.36 eða nýrri. Uppfærða orkuappið er ekki í boði fyrir árgerðir 2012–2020 af Model S eða árgerðir 2015–2020 af Model X.
Fylgstu með snjókornstákninu
Tákn með bláu snjókorni gæti birst á snertiskjánum og í appinu ef rafhlaðan er of köld til að hægt sé að nota fullan kraft og ná bestu drægni. Þegar þetta tákn birtist gætirðu tekið eftir minni hleðsluhemlun og hröðun.
Ef þú lætur ökutækið ávallt vera í hleðslu þegar mögulegt er og heldur hleðslustöðunni yfir 20% þegar það er ekki í hleðslu dregur það úr áhrifum kuldans.
Þegar rafhlaðan hitnar hverfur snjókornið. Þú getur notað hleðslu, akstur og undirbúning til að hita rafhlöðuna.
Notaðu leiðsögn í ökutækinu
Ef þú ætlar að nota Supercharger-hraðhleðslu á leiðinni mælum við eindregið með því að þú notir leiðsögn á Supercharger-hleðslustöðvar eða á áfangastað, jafnvel þó að þú þekkir leiðina. Þegar þú notar leiðsögn á Supercharger-hraðhleðslustöð forhitar bíllinn rafhlöðuna sjálfkrafa til að hámarka hleðsluhraðann þegar þú setur bílinn í samband. Þegar þú notar leiðsögn á áfangastað er kveikt á Trip Planner, sem vísar þér á Supercharger-hraðhleðslustöðvar eftir þörfum og kveikir á sjálfvirkri forhitun þegar þú nálgast Supercharger-hraðhleðslustöð. Forhitun getur stytt hleðslutímann verulega og gert þér kleift að komast fyrr á áfangastað.
Trip Planner er með eftirfarandi eiginleika til að fínstilla Supercharger-hraðhleðslu og lengri akstur:
- Nákvæmari hleðsluáætlanir: Hleðsluáætlanir fyrir lengri ökuferðir eru gerðar nákvæmari með því að nota betri áætlanir um notkun sem byggðar eru á veðri og aksturslagi í lengri og styttri ferðum.
- Snjallundirbúningur: ökutækið undirbýr sig byggt á því afli sem er í boði á tiltekinni Supercharger-hleðslustöð sem þú ert að fara til.
- Raunbiðtími og verð: frekari upplýsingar um Supercharger-hleðslu hjálpa þér að skipuleggja ferðina á meðan þú ert á ferð.
- Endurbætt leiðarval: Allt að þrír leiðarvalkostir til að velja úr.
Ábendingar fyrir snjó og ís
Ef þú býst við snjó eða ísingu geta þessar ábendingar hjálpað þér að geyma og aka Tesla bifreiðinni þinni á öruggan hátt.
Endurstaðsetning á rúðuþurrkum og speglum
Ef þú býst við því að snjór eða ís myndist skaltu setja rúðuþurrkurnar í þjónustustöðu og óvirkja sjálfvirka innfellingu hliðarspegla til að koma í veg fyrir ísmyndun.
Rúðuþurrkur í þjónustustöðu: Veldu „Controls“ > „Service“ > „Wiper Service Mode“ > „On“.
Slökkva á sjálfvirkri innfellingu spegla: Í öllum nýjum ökutækjum skaltu velja „Controls“ > „Mirrors“ > „Mirror Auto fold“. Í Model S sem framleidd var milli 2012-2020 og Model X sem framleidd var á árunum 2015-2020 skaltu velja „Controls“ > „Vehicle“ > „Mirror Auto-fold“.
Afþíðing á snjó og ís
Í frosti skaltu nota afþíðingareiginleikann í Tesla appinu til að bræða burt snjó og ís áður en ekið er af stað á meðan þú bíður inni í þægindum.
Hreinsun á mikilvægum yfirborðsflötum
Eins og á við um öll ökutæki skaltu ganga úr skugga um að mikilvægir yfirborðsfletir sé ekki frosnir eða huldir áður en þú ekur. Þú ættir að hreinsa snjó sem myndast af húddinu, þakinu og skottlokinu til að koma í veg fyrir að hann fjúki af og skapi hættu fyrir þig eða ökutæki á eftir þér.
Frosnir hurðarhúnar:
Model S: Hurðarhúnarnir eru hannaðir til að brjótast í gegnum ísinn þegar þeir eru færðir út úr ökutækinu.
Model X: Framhurðirnar eru með ísbrjótum sem ýta sjálfvirku hurðunum út jafnvel þegar þær eru ísaðar. Opnaðu útihurð með því að nota Tesla appið eða lykilfjarstýringuna ef erfitt er að ýta á handfangið.
Model 3 og Model Y: Þú getur opnað hurðina ökumannsmegin með Tesla appinu án þess að snerta hurðarhúninn. Til að opna þennan eiginleika í appinu: Haltu fingri á einni af flýtistýringunum sem birtast fyrir neðan bílinn þinn til að opna „Sérstilla stýringar“. Veldu „Opna hurð“ og dragðu stýringuna svo og slepptu henni á einu af flýtistýringarsvæðunum. Nú getur þú opnað hurðina með því að smella á flýtistýringuna á heimskjá appsins.
Til að hreinsa frosið handfang handvirkt skaltu slá á handfangið með hnefa íklæddum hanska þar til ísinn brotnar.
Til að færa frosna spegla og glugga:
Ef speglarnir eru frosnir skaltu opna og loka speglunum handvirkt til að endurheimta sjálfvirka innfellingu spegla. Ef frost er á gluggum skaltu afþíða með afþíðingareiginleikanum í Tesla appinu.
Frosnir Autopilot-skynjarar og myndavélar:
Til að ná bestum árangri skaltu hreinsa snjó, ís, leðju og óhreinindi af autopilot-skynjurum og myndavélum. Ef þig vantar frekari upplýsingar skaltu skoða hlutann „Um akstursaðstoð“ í eigendahandbókinni.
Frosið hleðslutengi:
Leystu vandamál tengt frosnu hleðslutengi með því að kveikja á afþíðingareiginleikanum í Tesla-appinu. Þegar hleðslutengi er frosið er riðstraumshleðsla hægari og gult gaumljós blikkar.
Loftinntak farþegarýmis frosið eða hulið:
Til að hitastig í farþegarýminu verði sem best skaltu fjarlægja allan klaka, snjó og önnur óhreinindi af loftinntakinu neðst á framrúðunni.
Vetrardekk
Mælt er með vetrardekkjum ef þú ekur á snævi þöktum eða ísuðum vegum eða ef reglur á staðnum krefjast þess. Þú getur keypt vetrardekk í völdum þjónustumiðstöðvum Tesla. Þú finnur frekari upplýsingar um ásetningu í hlutanum „Vetrardekk“ í eigendahandbókinni.
Snjókeðjur
Snjókeðjur gefa meira grip þegar ekið er í snjó eða ís. Skoðaðu reglur á þínum stað til að fá upplýsingar um hvort mælt er með eða þess krafist að snjókeðjur séu notaðar að vetri til. Hægt er að kaupa snjókeðjur í völdum þjónustumiðstöðvum Tesla. Ef þú vilt fá frekari upplýsingar skaltu skoða hlutann „Notkun á snjókeðjum“ í eigendahandbókinni.
Rúðuvökvi
Fylltu aftur með nýjum rúðuvökva ef kalt er í veðri. Íseyðingarefni geta gufað upp með tímanum og því skaltu bæta nýjum rúðuvökva á reglulega til að rúðuþurrkurnar séu alltaf reiðbúnar fyrir snjó og ís.