Elon Musk
Elon Musk er meðstofnandi og framkvæmdastjóri Tesla, SpaceX, Neuralink og The Boring Company.
Sem meðstofnandi Tesla og framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur Elon yfirumsjón með allri vöruhönnun, þróun og alþjóðlegri framleiðslu fyrirtækisins á rafbílum, rafhlöðum og sólarorkuvörum.
Frá stofnun fyrirtækisins árið 2003 hefur verkefni Tesla verið að hraða þróun heimsins í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum. Fyrsti framleiðslubíll Tesla, Roadster sportbíllinn, var kynntur árið 2008 og í kjölfar hans kom Model S fólksbíllinn, sem hleypt var af stokkunum árið 2012 og Model X sportjeppinn, sem kynntur var 2015. Model S fékk verðlaunin "Besti bíllinn" hjá Consumer Report og „Ultimate Car of the Year“ hjá Motor Trend. Model X var fyrsti sportjeppinn í sögunni sem fékk 5 stjörnu öryggiseinkunn í öllum flokkum og undirflokkum í prófum National Highway Traffic Safety Administration. Árið 2017 hóf Tesla afhendingu á Model 3, rafbíl sem er fjöldaframleiddur. Hann hefur 320 mílna drægni. Einnig kynnti fyrirtækið Tesla Semi, sem er hannaður til að spara eigendum að minnsta kosti 200.000 USD á hverjar milljón mílur, bara í eldsneytiskostnað. Árið 2019 kynnti Tesla Cybertruck til sögunnar sem hefur meira notagildi en hefðbundinn jeppi og er sprækari en sportbíll – einnig Model Y sportjeppann sem byrjað var að afhenda snemma árs 2020.
Tesla býr einnig til þrenns konar orkugeymslur, Powerwall heimarafhlöðuna, Powerpack iðnaðarrafhlöðuna og Megapack, sem er ætluð er fyrir orkuveitur. Árið 2016 varð Tesla fyrsta orkufyrirtækið á sviði sjálfbærrar orku til að ná fram samþættingu með kaupum á SolarCity, leiðandi fyrirtæki á sviði sólarorkukerfa í Bandaríkjunum og hóf árið 2017 sölu á Solar Roof – fallegri og hagstæðri orkuframleiðsluvöru.
Elon er aðalhönnuður hjá SpaceX og hefur yfirumsjón með þróun eldflauga og geimfara fyrir ferðir á sporbaug um jörðu og síðar til annarra reikistjarna. Árið 2008 varð SpaceX Falcon 1 fyrsta eldflaugin knúin fljótandi eldsneyti og þróuð af einkaaðilum til að komast á sporbaug um jörðu og SpaceX komst aftur á spjöld sögunnar árið 2017 en þá var Falcon 9 eldflaug og Dragon geimfari flogið aftur í fyrsta sinn. Skömmu síðar lauk Falcon Heavy fyrsta flugi sínu árið 2018, en það er öflugasta eldflaug sem nú er til í heiminum, tvöfalt öflugri en næsta sambærilega eldflaug. Árið 2019 lauk Dragon geimfarið frá SpaceX fyrsta tilraunaflugi sínu og mun fyrirtækið fljúga geimförum frá NASA til alþjóðlegu geimstöðvarinnar í fyrsta sinn árið 2020. Á þessum grunni er Space X nú að þróa Starship – fyllilega endurnýtanlegt flutningsfar, sem ætlað er að flytja geimfara og búnað til tunglsins, Mars og víðar – og Starlink sem mun gera kleift að bjóða upp á háhraða internettengingu á svæðum þar sem aðgangur hefur verið stopull, dýr eða ekki í boði. SpaceX hefur unnið frumherjastarf varðandi notkun endurnýtanlegra eldflauga og vinnur ötullega að því að mannkynið geti numið land á öðrum hnöttum með því að búa til sjálfbæra borg á Mars.
Elon er líka framkvæmdastjóri Neuralink sem er að þróa tengi milli heila og véla með mjög mikilli bandvídd þannig að unnt sé að tengja mannsheila við tölvur.
Hann stofnaði einnig The Boring Company sem þróar hraða og hagkvæma jarðgangnagerð og rafknúnar almenningssamgöngur til að minnka umferðateppur í borgum og gera háhraða samgöngur um langan veg að veruleika. The Boring Company byggði tilraunagöng, 1,15 mílur að lengd, í Hawthorne og er nú að byggja Vegas Loop, almenningssamgöngukerfi við Las Vegas Convention Center.
Áður var Elon meðstofnandi að PayPal, sem hann síðar seldi, en fyrirtækið er leiðandi á sviði netgreiðslna og Zip2, sem er eitt fyrsta fyrirtækið á sviði netkorta og leiðsögukerfa.